Íslenski boltinn

Ásmundur: Ætlum að gera betur en í fyrra

Elvar Geir Magnússon skrifar
Ásmundur Arnarsson.
Ásmundur Arnarsson.

„Það er endurtekin viðureign frá því í fyrra og það verður spennandi að mæta Fylkismönnum aftur," sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, eftir bikardráttinn í dag.

Fjölnir mætir Fylki aftur en liðin mættust einnig í undanúrslitum í fyrra. Þá fóru Fjölnismenn með 2-1 sigur af hólmi. „Þeir mæta líklega gríðarlega grimmir til leiks og ætla að hefna ófaranna frá því í fyrra. En við ætlum okkur alla leið," sagði Ásmundur.

Fjölnismenn komust í úrslitaleikinn í fyrra þar sem þeir töpuðu fyrir FH. „Við höfum lagt upp með það undanfarin ár að gera betur en árið á undan. Það er aðeins ein leið til að gera það í þessari keppni," sagði Ásmundur.

„Fylkisliðið er með góðan mannskap og þarna eiga þeir möguleika á því að krydda sitt tímabil verulega. Þar af leiðandi held ég að það sé jafnvel erfiðara að mæta þeim þarna heldur en liði sem er í góðum málum í deildinni."

Fjölnir hefur staðið sig frábærlega á sínu fyrsta ári í Landsbankadeildinni. „Það er ekkert launungarmál að aðaláhersla okkar hefur verið að standa okkur í deildinni. En engu að síður er bikarinn skemmtileg keppni og þetta getur gefið tímabilinu skemmtilegan lit. Það er ótrúlegt ævintýri að komast í bikarúrslitin og þegar menn eru komnir á þennan stað þá er allt lagt í að klára dæmið," sagði Ásmundur.

Undanúrslitaleikir VISA-bikars karla fara fram 31. ágúst og 1. september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×