Innlent

Valgerður: Skref sem verður að stíga

Valgerður Sverrisdóttir.
Valgerður Sverrisdóttir.

„Ég held að niðurstöður fundarins hafi verið mjög ásættanlegar," segir Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins um þá ákvörðun miðstjórnar að flýta flokksþingi og fela þinginu að taka ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu. Hún segir þetta nauðsynlegt skref.

Aðspurð hvernig gekk að koma þessu í gegn á fundinum segir Valgerður: „Drög að stjórnmálaályktun voru vægari í orðalagi en fundurinn var það ákveðinn á þeirri skoðun að vilja ganga lengra og þess vegna varð þetta niðurstaðan." Valgerður segist bjartsýn á að tillaga um að hefja aðildarviðræður við ESB verði samþykkt á flokksþinginu. „Þetta er ekkert á skjön við það sem við höfum verið að álykta til fjölda ára. Við erum búin að vinna að því í mjög mörg ár að kynna okkur Evrópumál og móta okkur stefnu í átta að sambandinu. Þetta er því kannski eðlilegt framhald á því."

Valgerður segir þetta eðliegt skref. „Nú er komið að því að stíga þetta skref. Vissulega eru einhverjir efins um að þetta sé rétt en mín tilfinning er sú að þetta sé það sem á að gera. Og með þá vissu í huga að á endanum sé það þjóðin sem tekur þessa ákvörðun þá trúi ég því að flokksþingið muni samþykkja þessa tillögu," segir Valgerður Sverrisdóttir að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×