Innlent

Nánast ómögulegt að fjármagna fyrirtæki

Nánast ómögulegt er fyrir fyrirtæki að fjármagna sig í dag segir, Þórólfur Mathhíasson, prófessor við Háskóla Íslands. Peningamarkaðssjóðir hafa hingað til verið lífæð atvinnulífsins en umtalsverðir fjármunir hafa tapast úr sjóðunum síðustu daga. Viðskiptaráðherra segir að enn sé verið að skoða hvað verður um innistæður í sjóðunum.

Peningamarkaðssjóðir samanstanda af skuldabréfum fyrirtækja, banka og sparisjóða, ríkisskuldabréfum og innistæðum í bönkum. T.a.m. hefur langstærsti hlutur í sjóði 9 í Glitni verið skuldabréf á bankanna. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með þessum sjóðum varðandi fjárfestingarstefnu þeirra en sjóðirnir eru reknir sem sjálfstæðar einingar.

Peningamarkaðssjóðir virka þannig að almenningur leggur sparifé sitt inn í sjóðinn. Stórfyrirtæki hafa síðan getað selt sjóðunum skuldabréf og fengið þannig fjármagn í sinn rekstur. Sjóðirnir hafa því verið lífæð í íslensku atvinnulífi.

Sjóðirnir hafa verið kynntir sem örugg ávöxtunarleið af bönkunum og því hefur almenningur talið að óhætt væri að leggja sparifé sitt inn á sjóðina.

Í ljósi tíðinda síðustu daga er ljóst að innistæður í peningamarkaðssjóðum hafa rýrnað umtalsvert. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sagði á blaðamannafundi í fyrradag að verið sé að skoða stöðu peningamarkassjóðanna og að þeirri vinnu verði vonandi lokið fyrir helgi áður en að viðskipti með sjóðina hefjist að nýju.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×