Innlent

Ljósmæður samþykktu miðlunartillögu ríkissáttasemjara

Guðlaug Einarsdóttir formaður Ljósmæðrafélags Íslands.
Guðlaug Einarsdóttir formaður Ljósmæðrafélags Íslands.

Ljósmæður samþykktu miðlunartillögu ríkissáttasemjara með 85 prósentum atkvæða. Meira en 80 prósenta þátttaka var í atkvæðagreiðslunni. Ljósmæður tilkynntu fréttamönnum þetta fyrir stundu.

Samkvæmt málamiðlunartillögu ríkissáttasemjara hækka laun ljósmæðra að meðaltali um 22,6 prósent, þar af fimm prósent í stofnanasamningum. Hækkunin gildir frá 1. ágúst  og gildir til 31. mars á næsta ári. Fjármálaráðherra samþykkti einnig samninginn fyrir sína hönd.

„Kröfur ljósmæðra voru að jafna þann launamun sem viðgengist hefur milli þeirra og annarra stétta með sambærilega menntun. Ljóst er að þessi niðurstaða er aðeins fyrsta skrefið í þeirri leiðréttingu því enn er langt í land. Ljósmæður bera því miklar væntingar til tímasettrar áætlanar stjórnvalda um leiðréttingu á launamun kynjanna, en nefnd sem vinnur að áætluninni á að skila niðurstöðu í nóvember," segir í tilkynningu frá Ljósmæðrafélagi Íslands.

Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, sagði í samtali við fréttamenn í Karphúsinu, þar sem ákvörðunin var tilkynnt, að samningurinn væri stórt skref en enn væri nokkuð í land til þess að ljósmæður yrðu jafnokar sambærilegra stéttan innan BHM.

Ljósmæður munu í kvöld fagna þessum áfanga með því að safnast saman heima hjá Unni Friðriksdóttur, meðlimi samninganefndar, en hápunktur kvöldsins verður hópferð á söngsýninguna Mamma Mia í Háskólabíói.

Verkföllum ljósmæðra í næstu og þarnæstu viku verður væntanlega aflýst og sömuleiðis má búast við að fjármálaráðherra hætti við málssókn á hendur ljósmæðrum fyrir félagsdómi vegna meintra ólöglegra uppsagna.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×