Innlent

Skýrslutöku ólokið 44 dögum eftir meinta árás eiginmanns

Lögregla hefur ekki enn tekið skýrslu af konu sem lögð var inn á sjúkrahús í byrjun september en grunur leikur á að eiginmaður hennar hafi gengið í skrokk á henni á heimili þeirra.

Konan var meðvitundarlaus í rúman hálfan mánuð og hefur verið á hægum batavegi síðan þá. Hún er nú á endurhæfingardeild Landspítalans við Grensás.

,,Það hefur verið rætt við konuna en endanlegri skýrslutöku er ekki lokið. Það sem mun væntanlega gerast á næstu dögum," segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, og bætir við að málið sé að öðru leyti enn í rannsókn.

Friðrik reiknar með að rannsókn málsins ljúki fljótlega eftir að búið verður að taka skýrslu af konunni. ,,Það eru ekki margir lausir endar eftir hjá okkur."

Árásin mun hafa átt sér stað fyrir 44 dögum á heimili hjónanna í Breiðholti. Í kjölfarið leitaði konan á náðir vina og gisti hjá þeim. Samkvæmt upplýsingum Vísis missti konan meðvitund daginn eftir og var hún þá flutt á spítala. Var hún hætt komin vegna blæðingar inn á heila og gekkst undir bráðaaðgerð. Maðurinn var í framhaldinu úrskurðaður í gæsluvarðhald sem rann út 10. september.

Löng saga um ofbeldi einkennir sambúð hjónanna sem eru á sextugsaldri. Samkvæmt heimildum Vísis hefur maðurinn ekki áður verið kærður fyrir heimilisofbeldi en lögreglan hefur áður verið kölluð að heimili hjónanna vegna heimiliserja.


Tengdar fréttir

Kona á hægum batavegi eftir meinta árás eiginmanns

Lögregla hefur ekki enn getað tekið skýrslu af konu sem lögð var inn á sjúkrahús í byrjun september en grunur leikur á að eiginmaður hennar hafi gengið í skrokk á henni á heimili þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×