Erlent

Hillary vill sniðganga opnunarhátíð Ólympíuleikanna

MYND/AFP

Hillary Clinton hefur hvatt George Bush Bandaríkjaforseta til að sniðganga opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Peking nema kínversk stjórnvöld geri meiriháttar breytingar á stefnu sinni í mannréttindarmálum.

Hún sagði að með því myndu Bandaríkin undirstrika áhyggjur af ófriðnum í Tíbet og sambandi Kínverja við yfirvöld í Súdan.

Clinton sagði að ofbeldið í Tíbet og misheppnaðar tilraunir yfirvalda í Kína til að stöðva þjóðarmorð í Darfur gæfu forsetanum tækifæri til að sýna styrk sinn sem leiðtoga.

Bush hefur sagt að hann muni vera viðstaddur þar sem um sé að ræða íþróttaviðburð, en ekki stjórnmálaviðburð. Talsmaður Hvíta hússins sagði að af staða hans hefði ekki breyst.

Barack Obama sem berst við Clinton um tilnefningu Demókrataflokksins sem forsetaefni þess sagði nýlega að hann væri ekki viss hvort Bandaríkin ættu að taka fullan þátt.

Í síðustu viku tilkynnti Stephen Harper forsætisráðherra Kanada að hann myndi, líkt og Angela Merkel kanslari Þýskalands, sniðganga opnunarhátíðina. Ákvörðun þeirra og yfirlýsing Clinton lýsa vaxandi þrýstingi á Bandaríkjastjórn að bregðast við ofbeldi og aðgerðum Kína gagnvart lýðræðissinnum í Tíbet.

Flestir helstu stjórnmálamenn í Bandaríkjunum, meðal annars Nancy Pelosi forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hafa gengið langt í yfirlýsingum sínum í þessa veru en hafa þó ekki sagt berum orðum að forsetinn eigi að sniðganga leikana 8-24. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×