Innlent

Sakfelldur fyrir að ráðast á starfsmann meðferðarheimilis

Sextán ára piltur hefur verið fundinn sekur um alvarlega árás gegn starfsmanni meðferðarheimilis. Þolandinn slasaðist illa á baki í árásinni.

Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmir í málinu en þar var höfuðborgarbúi, sem nú er 16 ára gamall, ákærður fyrir að hafa í félagi við tvo aðra drengi ráðist að tveimur starfsmönnum meðferðarheimilis í Aðaldal í júní í fyrrasumar.

Í ákæru segir að piltarnir hafi slegið starfsmann ítrekað með krepptum hnefa í bak, háls, herðar og höfuð en öðrum hafi verið ógnað. Afleiðingar árásarinnar hafi orðið þær að starfsmaðurinn hafi hlotið mikil þreyfieymsli yfir tveimur hryggjarliðum, eymsli á hálsi og hnakka og mar á hægra herðablaði.

Ákærði játaði sök. Hann var í maí dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár og segir í dóminum að beri að tiltaka refsingu hans sem hegningarauka við þann dóm er samsvari þeirri þyngingu hegningarinnar, sem kynni að hafa orðið, ef dæmt hefði verið um öll brotin í fyrra málinu.

Með tilliti til æsku ákærða og með hliðsjón af málsatvikum þyki ekki ástæða til að þyngja refsinguna frekar og er því ákærða ekki ekki gerð sérstök refsing í þessu máli, önnur en sú að hann greiðir málskostnað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×