Innlent

Arðsemismat Kárahnjúka mögulega endurskoðað

Gríðarleg lækkun hefur orðið á álverði undanfarna mánuði, og kemur til greina að arðsemismat vegna Kárahnjúkavirkjunar verði endurskoðað vegna þessa. Verð á raforku til stóriðju er tengt álverði, og hefur því lækkandi álverð lægri tekjur í för með sér fyrir orkufyrirtæki.

„Ég held að það sé ekki ólíklegt að arðsemismatið [á Kárahnjúkavirkjun] verði endurskoðað," segir Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. Það hafi verið rætt, en engin ákvörðun tekin.

Upphaflega var talið að arðsemi eigin fjár vegna virkjunarinnar yrði um 11,9 prósent. Þar var miðað við að heimsmarkaðsverð á áli væri að meðaltali um 1.550 dollarar á tonnið. Nú er verðið komið niður í 1.500 dollara, og hefur hrunið úr um 3.300 dollurum í júlí.

Landsvirkjun endurskoðaði arðsemismatið í janúar 2008. Þá var arðsemi eigin fjár metin um 13,4 prósent. Helsta ástæðan fyrir þessari aukningu var hærra heimsmarkaðsverð á áli.

„Tekjur Landsvirkjunar hafa lækkað á síðustu mánuðum ársins. Landsvirkjun er þó með varnarsamninga sem verja fyrirtækið fyrir hluta lækkunarinnar. En þetta hefur neikvæð áhrif og það segir sig sjálft að við viljum hafa álverð hærra," segir Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsvirkjunar.

Þorsteinn segir að lægri fjármagns- og vaxtakostnaður vegi að einhverju leyti upp á móti lækkandi álverði. Landsvirkjun noti dollara sem starfrækslumynt, og því hafi lágir stýrivextir í Bandaríkjunum góð áhrif.

Sveiflur á álverði eru algengar, og þarf því að áætla hvert verðið verður til lengri tíma þegar arðsemi af stórum framkvæmdum eins og Kárahnjúkavirkjun er metin, segir Þorsteinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×