Íslenski boltinn

Gravesen vill vera áfram á Íslandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Peter Gravesen í leik með Fylki í sumar.
Peter Gravesen í leik með Fylki í sumar. Mynd/Valli

Peter Gravesen sagði í samtali við Vísi að hann vildi gjarnan vera áfram á Íslandi en óljóst sé hvort hann verði áfram í herbúðum Fylkis.

„Ég hef átt nokkra fundi með Fylkismönnum en enn sem komið er liggur enginn samningur á borðinu," sagði Gravesen. „Það er því ekki víst hvað verður."

Hann sagðist þó gjarnan vilja vera áfram á Íslandi, í að minnsta kosti eitt ár til viðbótar.

„Mér líkar mjög vel á Íslandi og vil gjarnan spila hér áfram."

Fylkismenn eru sem stendur þjálfaralausir en Gravesen segir að honum myndi ekki skipta miklu máli hvaða þjálfari yrði ráðinn.

„Þetta snýst um að spila fótbolta og að hafa gaman af því. Það erum við strákarnir sem vinnum vinnuna inn á vellinum," sagði hann.

Hann sagði einnig að vissulega hefði það áhrif að efnahagsástandið og þá sérstaklega staða íslensku krónunnar er erfið.

„Ég held að það verði mun erfiðara fyrir félög að fá erlenda leikmenn til sín," sagði hann. „En þetta er ekki aðalatriðið í mínum augum. Ég vil gjarnan vera áfram á Íslandi."

Gravesen hefur verið í herbúðum Fylkis í þrjú ár og leikið 53 leiki í bæði deild og bikar á þessum tíma og skorað átta mörk.

Þess má einnig geta að Ian Jeffs, leikmaður Fylkis, skrifaði undir þriggja ára samning við félagið í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×