Innlent

Ráðherra boðar gangskör í geðheilbrigðismálum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Gunnar V. Andrésson

Geðheilbrigðismál verða tekin til sérstakrar endurskoðunar þegar starfshópur verður settur á laggirnar í sumar. Munu málefni réttargeðdeildarinnar á Sogni falla undir þá endurskoðun. Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra í samtali við Vísi.

Brot Magnúsar Skúlasonar, geðlæknis á Sogni, sem vikið hefur verið frá störfum fyrir að svíkja út lyf í nafni skjólstæðinga sinna, hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarið og hafa heilbrigðisráðherra og landlæknir fundað um málið.

Ósáttur við ummæli Kristófers

Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir kvaðst verulega ósáttur við ummæli Kristófers Þorleifssonar, formanns Geðlæknafélags Íslands, í sjónvarpsviðtali þar sem hann hafi haldið því fram að Magnús hafi starfað á Sogni eftir að hafa verið sviptur leyfi til að ávísa róandi lyfjum og svefnlyfjum. „Hann var alls ekkert sviptur því leyfi, hann var sviptur leyfi til að skrifa út eftirritunarskyld lyf. Í þeim hópi eru örvandi lyf og örvandi lyf eru ekkert notuð á Sogni. Við vorum mjög óhressir með þetta. Hann sagði að þetta yrði leiðrétt í sjónvarpinu en það hefur engin leiðrétting komið," sagði Matthías.

Hann sagði enn fremur að verið væri að ráða nýjan geðlækni á Suðurlandi sem væru mjög góð tíðindi. Erfitt hefði verið að manna geðlæknastöður utan Reykjavíkur fram til þessa. Einnig væri búið að ráða nýjan iðjuþjálfa á Sogn sem væri ákaflega mikilvæg staða þar. Matthías segir hollenska geðlækninn John Donne deNit hafa borið hitann og þungann af starfinu á Sogni og beri embættið fullt traust til hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×