Innlent

Dæmdur fyrir nauðgun á Hótel Sögu

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvítugan pólskan karlmann, Robert Dariusz Sobiecki í þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun sem átti sér stað á salerni í kjallara Hótels Sögu við Hagatorg í Reykjavík í mars í fyrra. Þá var hann dæmdur til að greiða henni eina og hálfa milljón í bætur.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður sýknað manninn af ákæru um naugðun meðal annars af þeirri ástæðu að hann hefði ekki gerst sekur um ofbeldi í garð stúlkunnar sem í hlut átti. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands sem ómerkti dóminn og vísaði honum aftur til aðalmeðferðar og dóms í héraði að nýju.

Pétur Guðgeirsson, héraðsdómari í málinu, úrskurðaði að hann og meðdómarar hans skyldu víkja í málinu en þeim úrskurði hnekkti Hæstiréttur. Pétur fór hins vegar fram á það við dómsstjóra að málinu yrði vísað til annarra dómara og á það féllst dómsstjóri.

Robert var ákærður fyrir að hafa þröngvað stúlku til samræðis og annarra kynferðismaka með því að ýta henni inn á salernisbás og halda henni þar meðan hann kom fram vilja sínum.

Robert og stúlkan hittust fyrst skömmu áður en konan fór á salernið en framburður þeirra um það sem fram fór á klósettinu var gerólíkur. Sagði Robert að samfarir hefðu verið með samþykki stúlkunnar en hún neitaði því og sagðist hafa frosið. Taldi dómurinn að framburður konunnar hefði verið einkar trúverðugur en Roberts ekki og var Robert því sakfelldur samkvæmt ákæru.

Í dómsniðurstöðu segir að ákærði hafi verið sakfelldur fyrir alvarlegt kynferðisbrot gagnvart stúlku sem var 19 ára þegar brotið var framið. Var brotið framið á stað þar sem hún átti sér einskis ills von. „Brot ákærða var ófyrirleitið og til þess fallið að valda stúlkunni verulegum skaða. Á ákærði sér engar málsbætur," segir í dómnum.

Vísar dómurinn svo til þess að Hæstiréttur hafi tekið fastar á kynferðisbrotum á liðnum misserum og meðal annars vegna þess var ákveðið að dæma Robert í þriggja ára fangelsi. Til frádráttar dómnum kemur gæsluvarðhald sem Robert sætti í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×