Innlent

Vonast eftir vaxtalækkun á næstunni

Ríkisstjórnin vonast eftir að vaxtalækkun á næstunni og viðskiptaráðherra telur að hún geti orðið myndarleg. Forsætisráðherra segir að útlfytjendur hafi ekki flutt gjaldeyri heim og skorar á þá að gera það.

Ríkisstjórnin kom saman til fundar í morgun og eftir þann fund sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra að Nýr Glitnir yrði til í dag eða kvöld og að verið væri að reyna að koma reglu á gjaldeyrisviðskipti þjóðarinnar og eðlilega gengiskráningu.

Geir sagði enn fremur að borið hefði á því að útflytjendur hefðu ekki flutt gjaldeyri heim fyrir afurðir sínar. Hann vildi nota tækifærið til þess að hvetja þá til að gera það. Útflytjendur sem Stöð 2 hefur rætt við segjast ekki hafa fengið greiðslur fyrir útflutninginn og skýringin sem þeir hafi fengið hafi verið sú að gömlu bankarnir, sem nú eru liðnir undir lok, skuldi erlendu bönkunum.

Kallað hefur verið eftir stýrivaxtalækkun í samfélaginu til þess að hjól efnahagslífsins snúist áfram. Forsætisráðherra segir gjörbreyttar aðstæður í landinu og verið sé að vinna að nýrri þjóðhagsspá. Þegar hún liggi fyrir gæti Seðlabankinn tekið afstöðu til þess hvort lækka eigi stýrivexti.

Í sama streng tók Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra. Aðspurður um hvenær stýrivaxtalækkunar væri að vænta sagði hann að hin nýja þjóðhagsspá myndi liggja fyrir síðar í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×