Innlent

Krefja stjórnvöld um réttlát námslán

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna.
Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna.

Ungir jafnaðarmenn, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, krefjast þess að ríkisstjórn og yfirmenn banka landsins geri námsmönnum og öðrum sem staddir eru erlendis kleift að kaupa gjaldeyri og að námslán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna verði greidd út mánaðarlega.

,,Fjölmargir einstaklingar og fjölskyldurnar erlendis lenda nú í miklum erfiðleikum sökum skorts á gjaldeyri. Komið hefur verið á greiðslumiðlun fyrir Nýja Landsbankann með aðstoð Seðlabankans, en mikilvægt er að sambærileg aðstoð verði tafarlaust veitt í öðrum bönkum landsins og að greiðslumiðluninni verði tryggður nægur gjaldeyrir," segir í ályktun UJ.

Vegna veikingar íslensku krónunnar er dýrt fyrir íslenska námsmenn að búa erlendis, að mati Ungra jafnaðarmanna. ,,Í janúar verða námslánin greidd út í mynt þess lands sem námsmaður dvelur í og verða lánin væntanlega mun lægri en sú upphæð, í íslenskum krónum talið, sem námsmaður hefur notað til þess að kaupa gjaldeyri."

Ungir jafnðarmenn telja mikið óöryggi og álag fylgja núverandi fyrirkomulagi á greiðslu námslánanna, sökum þess að lánin eru greidd eftir á.

Ungir jafnaðarmenn segja að háskólamenntað fólk muni gegna lykilhlutverki við uppbyggingu landsins og nauðsynlegt sé að hvetja góða námsmenn í háskólanám, nú sem endranær. ,,Sérstaklega mikilvægt er að áfram verði eftirsóknarvert að fara í nám erlendis því þannig byggjum við upp tengsl Íslands og flytjum inn nýja þekkingu til landsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×