Innlent

Samið við ríkisstjórn Djíbúti um hagkvæmnisathugun á nýtingu jarðhita

Gengið hefur verið frá samkomulagi milli Reykjavik Energy Invest og ríkisstjórnar Afríkuríkisins Djíbútí um gerð ítarlegrar hagkvæmniathugunar á nýtingu jarðhita í landinu.

Athugunin felur meðal annars í sér borun rannsóknarborhola og er ætlunin að fjármagna hana með fé frá IFC, fjármögnunarsjóði Alþjóðabankans, og EIB, Evrópska fjárfestingabankanum. Einnig felur samkomulagið í sér ákvæði um tilhögun leyfisveitinga, raforkusölu og tolla- og skattamála, reynist nýting jarðhitans í Djíbútí hagkvæm. Leiði athugun til jákvæðrar niðurstöðu verður skoðað hvernig ráðast megi í framkvæmd verkefnisins í samvinnu við áhugasama fjárfesta.

„Rannsóknarboranir í Djíbútí geta hafist undir lok ársins og er markmið þeirra að staðfesta tilvist virkjanlegs jarðhita og rannsaka eðliseiginleika jarðhitavökvans. Vísbendingar eru um að efnainnihald hans sé óhagstæðara en Orkuveita Reykjavíkur býr við á Hengilssvæðinu, en líkara því sem er að finna t.a.m. á Reykjanesi. Þá fóru einnig utan sérfræðingar Orkuveitu Reykjavíkur á sviði umhverfismála og umhverfismats og er REI að vinna ýtarlega skýrslu um umhverfisþætti verkefnisins.

Á ferð sinni ytra kynntu stjórnarmenn og stjórnendur REI sér einnig möguleika á jarðhitanýtingu í Jemen og í Eþíópíu, en á hvorugum staðnum var um fjárhagslegar skuldbindingar að ræða. Í Jemen var skrifað undir minnisblað um frekari viðræður milli REI og orkufyrirtækis jemenska ríkisins. Sambærilegt minnisblað var undirritað í Eþíópíu í janúar síðastliðnum," segir í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 verður rætt við Kjartan Magnússon stjórnarformann REI.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×