Innlent

Þyngsti dómur fyrir eitt nauðgunarbrot á Íslandi

Fimm ára fangelsisdómur yfir Litháunum tveimur, sem sakfelldir voru fyrir hrottafengna nauðgun í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, er sá þyngsti sem fallið hefur fyrir eitt nauðgunarbrot í íslenskri dómaframkvæmd.

Litháarnir Arunas Bartkus 32 ára og Rolandas Jancevicius 28 ára voru ákærðir fyrir að hafa báðir nauðgað konu aðfaranótt 10. nóvember síðastliðinn í húsasundi við Laugaveg eða Vitastíg í Reykjavík. Þá beittu þeir hana harkalegu ofbeldi, neyddu hana til munnmaka og mátti sjá verulega áverka á henni þegar hún leitaði til Neyðarmóttöku nauðgana.

Dómurinn taldi öll gögn í málinu sýna að atburðurinnn hefði átt sér stað og vitnisburður konunnar væri trúverðugur þrátt fyrir sakarneitun annars þeirra. Þeir voru dæmdir í fimm ára fangelsi hvor og þurfa að greiða konunni tvær milljónir króna í miskabætur.

Þetta er þyngsti dómurinn fyrir eitt einstakt nauðgunarbrot í íslenskri dómaframkvæmd að sögn Sigríðar Friðjónsdóttur saksóknara í málinu og taldi dómurinn að horfa bæri til þess hversu hrottalegur verknaður hinna ákærðu væri í ljósi kringumstæðna og þeirra svívirðilegu og niðurlægjandi aðferða sem þeir beittu gagnvart konu sem þeir þekktu ekki og áttu ekkert sökótt við.

Litháarnir hafa ekki orðið uppvísir að refsiverðri háttsemi hér á landi áður en báðir hafa þeir hlotið dóma í heimalandi sínu. Árið 2002 hlaut Arunas Bartkus fimm ára fangelsisdóm í Litháen fyrir fjárkúgun og 2004 var hann dæmdur í árs fangelsi fyrir þjófnað. Hann kveðst hafa afplánað hluta refsinganna en hvorki liggja fyrir gögn um reynslulausn né skilyrði hennar.

Þá var Rolandas Jancevicius dæmdur í í tveggja ára fangelsi fyrir þjófnað 1999 og hlaut fjögurra ára fangelsisdóm fyrir rán 2002. Hann hefur afplánað þær refsingar í heimalandi sínu. Ekki liggur fyrir hvort mennirnir áfrýi niðurstöðu Héraðsdóms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×