Erlent

Ástralska lögreglan upprætir mansals-glæpahring

Ástralska lögreglan bjargaði tíu konum úr vændishúsi í Sydney.
Ástralska lögreglan bjargaði tíu konum úr vændishúsi í Sydney. MYND/AFP

Ástralska lögreglan segist hafa upprætt alþjóðlegan mansals-glæpahring eftir björgun tíu suður-kóreskra kvenna úr vændishúsum í Sydney. Fimm manns hafa verið handteknir og meðal annars ákærðir fyrir mansal og skuldaánauð.

Lögreglan segir að konurnar hafi verið plataðar til Ástralíu og þvingaðar til að vinna allt að 20 klukkustundir á dag í löglegum vændishúsum borgarinnar. Konurnar höfðu samþykkt að vinna í kynlífsiðnaðinum en slæmum aðstæðum var ekki lýst fyrir þeim áður en þær komu á staðinn.

Þegar konurnar komu til Ástralíu tóku glæpasamtökin vegabréf þeirra samkvæmt upplýsingum lögreglu.

Lyn O'Connell aðstoðarframkvæmdastjóri ástralska útlendingaeftirlitsins segir hringinn vera þann stærsta sem tekist hafi að uppræta í Ástralíu.

Fimmmenningarnir sem voru handteknir eru meðal annars suður-kóresk kona og kóresk-áströlsk kona sem lögregla telur höfuðpaur glæpahringsins sem þénaði tæplega 200 milljónir króna á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×