Innlent

Heimild í frumvarpi fyrir nýja lögreglustöð og fangelsi

MYND/GVA

Í nýju fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er að finna heimildir til kaup eða leigu á ýmsum fasteignum fyrir stofnanir ríkisins. Þannig er gert ráð fyrir heimild til að kaupa sendiherrabústað í Pretoríu í Suður-Afríku, kaupa eða leigja hentugt húsnæði fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, sem nú er við Lækjartorg, og að kaupa eða leigja húsnæði fyrir Vinnumálastofnun.

Enn fremur er gert ráð fyrir heimild til að kaupa eða leigja hentugt húsnæði fyrir höfuðstöðvar lögreglu á höfuðborgarsvæðinu og fangelsi en að þess í stað verði núverandi húsnæði að Hverfisgötu selt. Þá kveður frumvarpið á um heimild til að kaupa eða leigja húsnæði fyrir starfsemi Tryggingastofnunar og nýrrar Sjúkratryggingastofnunar, húsnæði fyrir Umferðarstofu og sömuleiðis fyrir nýsameinaða Veðurstofu Íslands og Vatnamælingar.

Tekið skal fram að þótt heimild sé fyrir þessu í frumvarpinu er ekki þar með sagt að ráðist verði í kaupin. Nokkrar heimildir eru inni í fjárlagafrumvarpinu frá ári til árs. Þannig er fjárlagafrumvarpi ársins 2009 líkt og í frumvarpi þessa árs gert ráð fyrir heimild til að kaupa hverasvæði Geysis í Haukadal og heimild til að semja við Reykjavíkurborg um lóð undir samgöngumiðstöð í Vatnsmýri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×