Innlent

Vilja að íbúar fái að kjósa um Fríkirkjuveginn

Salan á Fríkirkjuvegi 11 er á dagskrá borgarráðs á morgun. Þorleifur Gunnlaugsson, Vinstri-grænum, segir að VG muni greiða atkvæði gegn sölunni og því þurfi málið að fara fyrir borgarstjórn á ný. Þorleifur segist á þeirri skoðun að til greina komi að leggja málið í dóm íbúa á svæðinu.

Hann segir einnig að Húsafriðunarnefnd hljóti að koma að málinu. Forstöðumaður Húsafriðunarnefndar segir málið ekki hafa komið inn á borð nefndarinnar en býst við að svo verði þegar draga fer til tíðinda.

„Málið er á dagskrá borgarráðs á morgun og þar munum við leggja ýmislegt til," segir Þorleifur. „Það er einnig ljóst að við munum greiða atkvæði gegn sölunni sem þýðir að borgarstjórn þarf að fjalla um málið að nýju." Á borgarstjórnarfundi í gær sagði Ólafur F. Magnússon borgarstjóri að stefnt væri að því að klára málið fyrir 2. maí næstkomandi áður en 100 daga valdaafmæli núverandi meirihluta rennur upp.

Nikulás Úlfar Másson, forstöðumaður Húsafriðunarnefndar, segir að málið hafi ekki komið inn á borð til þeirra. „Við hljótum þó að koma að þessu þegar eitthvað fer að gerast í málinu í ljósi þess að húsið er friðað," segir hann en allar breytingar sem gerðar eru á húsinu þarf að bera undir nefndina. Að sögn Nikulásar er garðurinn sjálfur ekki friðaður en á það hefur verið bent að hestagerði við austurhluta hússins eigi að vernda. Nikulás segir að í dag njóti gerðið engrar sérstakrar verndar en að stutt sé í það að það verði 100 ára gamalt sem myndi gera það að verkum að það fellur undir fornleifavernd.

Hugmyndir væntanlegra kaupenda ganga meðal annars út á að láta gera skarð í gerðið til þess að gera bifreiðum kleift að aka að húsinu. Þorleifur bendir á að gerðið hafi í áraraðir verið leiksvæði barna í hverfinu og meðal annars af þeim sökum sé eðlilegt að íbúar fái að segja sína skoðun á málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×