Innlent

Telur deilur við Breta ekki hafa mikil áhrif á viðskipti landanna

Deila Íslendinga og Breta mun ekki hafa langvarandi áhrif á viðskipti landanna að mati framkvæmdastjóra Útflutningsráðs. Hann vonast til þess að viðskipti verði fljótlega komin eðlilegt horf.

Ekki liggur fyrir hvaða afleiðingar deilur Íslendinga og Breta kunna að hafa fyrir viðskipti milli landanna. Forsvarsmenn Baugs í Bretlandi segja í Fréttablaðinu að deilurnar hafi skaðað orðstír landsins og gert fyrirtækinu erfitt um vik.

Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Útflutningsráðs, segir þó ljóst að forsætisráðherra Bretlands sé að nota málið í pólitílskum tilgangi. „Það eru fram undan kosningar í Bretlandi og hann er að stappa stálinu í sitt lið. Þá er voða gott að tala digurbarkarlega og karlmannlega og vera tilbúinn að fara í stríð við Ísland og íslensk stjórnvöld. Ég hef séð þetta áður í Bretlandi þegar Thatcher réðst á Falklandseyjar til að líta betur út í komandi kosningum," segir Jón.

Hann segist enn fremur sannfærður um það að menn munu sjá að sér og setja þetta í eðlilegan farveg innan skamms. Aðspurður segist hann ekki vita til þess að þetta hafi skaðað íslensk fyrirtæki. „Ég veit að það eru ákveðnir hnökrar á færslu á fjármagni en ég held að það sé enginn skaði skeður enn þá," segir Jón.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×