Innlent

Stjórnarandstaðan vill fund með ríkisstjórn um ástandið

MYND/GVA

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna kröfðust þess á Alþingi í morgun að verða upplýstir um stöðu efnahagsmála eftir þróun síðustu daga. Forsætisráðherra sagði sjálfsagt að flytja þinginu skýrslu um málið þegar allar upplýsingar sem eðlilegt væri að opinbera lægju fyrir.

Til stóð að óundirbúinn fyrirspurnartími yrði á Alþingi í dag en þingmenn höfðu fengið þau skilaboð að Geir H. Haarde forsætisráðherra kæmist ekki eins og til stóð. Hann var hins vegar mættur við upphaf þingfundar og gagnrýndi Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, ef menn ætluðu sér að ræða stöðu efnahagsmála undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir. Það væri ekki hægt að ræða svo stór mál í tveggja mínútna rökræðum og því bæri forsætisráðherra að sjá sóma sinn í að flytja skýrslu um stöðu mál. Forsætisráðherra hefði tíma fyrir blaðamannafundi og hann hlyti að hafa tíma fyrir Alþingi líka.

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, benti á að listi yfir þá ráðherra sem yrðu viðstaddir fyrirspurnartíma hefði verið sendur út á föstudag. Síðan þá hefði ýmislegt breyst. Forsætisráðherra hefði hins vegar komið á þing og væri reiðubúinn að svara óundirbúnum fyrirspurnum þingmanna.

Bæði Guðjón Arnar Krisjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, og Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, tóku undir orð Steingríms og vildu láta endurskoða dagskrá þingsins svo hægt væri að ræða málið betur. Sagði Guðni að stjórnarandstaðan vildi fá fund með ríkisstjórninni. Það gengi ekki að þingið væri flutt á blaðamannafundi út í bæ. Stjórnarandstaðan hefði engin gögn eða upplýsingar um málið þrátt fyrir samstarf við ríkisstjórnarflokkana á mánudag þegar lög um efnahagslífið hefðu verið sett.

Geir H. Haarde svaraði því til að það væri sjálfsagt að flytja þinginu skýrslu þegar ríkisstjórnin hefði allar þær upplýsingar sem eðlilegt væri að opinbera. Það væri mikilvægt að forystumenn stjórnarflokkanna ættu trúnaðarsamtöl við forystumenn stjórnarandstöðunnar. Hlutirnir gerðust mjög hratt þessa dagana og um væri að ræða miklar og alvarlegar breytingar á þjóðfélaginu. Hann sagðist myndu beita sér fyrir fundi með stjórnarandstöðunni og svo yrði skýrsla flutt á Alþingi við fyrsta hentugleika.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×