Innlent

Læknar hafa náð samkomulagi við ríkið

Samninganefnd Læknafélags Íslands og samninganefnd ríkisins komust að samkomulagi um nýjan kjarasamning síðdegis í dag. Skrifað var undir nýjan samning hjá ríkissáttasemjara fyrr í kvöld.

Að sögn Gunnars Ármannssonar, formanns samninganefndar Læknafélagsins felur samningurinn í sér 6% meðaltalshækkun launa. Launagreiðslur til ungra lækna hækka hlutfallslega mest en mikil óánægja var með ungra lækna með fyrri samkomulag sem gert var í sumar.

„Samkomulagið felur í sér 20.300 króna hækkun á allar launatöflur félagsmanna. Auk þess munu allar yfirvinnugreiðslur hækka," segir Gunnar.

Samningstíminn er 1. september til 31. mars 2009. Læknafélagið telur eðlilegt að semja til skemmri tíma miða við núverandi stöðu í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Samningurinn verður kynntur læknum strax á morgun og verður haldinn kynningafundur á allra næstu dögum. Í framhaldinu fer fram atkvæðagreiðsla um samninginn og verður hún rafræn að sögn Gunnars.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×