Innlent

Fjöldi húsa stendur auður á Austurlandi

Á milli 30 og 50 hús standa auð á Fljótsdalshéraði og annar eins fjöldi er í byggingu.
fréttablaðið/Kox
Á milli 30 og 50 hús standa auð á Fljótsdalshéraði og annar eins fjöldi er í byggingu. fréttablaðið/Kox
Mörg hús standa auð á áhrifasvæði framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun, Fljótsdalshéraði og Fjarðabyggð. Mikil uppbygging var á svæðinu en að framkvæmdum loknum standa húsin auð.

Á Fljótsdalshéraði standa á bilinu 30 til 50 íbúðir auðar. Um 10 lóðum hefur verið skilað inn að undanförnu og nemur kostnaður við endurgreiðslu gatnagerðargjalda 12 til 13 milljónum. Þá voru innkallaðar 5 lóðir sem lóða- eða gatnagerðargjöld voru ekki greidd af á réttum tíma. Einhverjum lóðanna hefur verið úthlutað aftur. Að auki eru á milli 40 og 50 íbúðir og einbýlishús í smíðum á ýmsum byggingarstigum í sveitar­félaginu.

Íbúar sveitarfélagsins voru 1. desember í fyrra 4.073 og standi 50 íbúðir auðar þýðir það að 81,46 íbúar eru á hverja auða íbúð. Sé þeim 50 sem eru í byggingu bætt við eru 40,75 íbúar á hverja auða íbúð eða í byggingu. Séu þessar tölur heimfærðar á höfuðborgarsvæðið, hvar bjuggu 195.972 á sama tíma, þýðir þetta að 2.406 íbúðir ættu að standa þar auðar og 4.809 auðar og í byggingu.

Helga Jónsdóttir
Á Reyðarfirði var einnig reistur fjöldi húsa vegna Kárahnjúkavirkjunar og stór hluti þeirra stendur auður. Samkvæmt upplýsingum frá Helgu Jónsdóttur, bæjarstjóra Fjarðabyggðar, er mestur hluti þess húsnæðis þó í leigu. Tólf lóðum hefur verið skilað til sveitarfélagsins á árinu og nema gatnagerðargjöld af þeim nálægt 9 milljónum króna.

Helga segir fjárhag sveitarfélagsins þó alltraustan. Tekjur hafi vaxið að undanförnu, ekki síst vegna Alcoa Fjarðaráls, og öflugra sjávarútvegsfyrirtækja. Greiðslubyrði lána sveitarfélagsins sé hins vegar erfið á næsta ári, enda hafi verið mikil uppbygging undanfarið. „Veruleg lán voru tekin til að standa undir þessum fjárfestingum og greiðslubyrði þeirra á næsta ári verður umtalsvert umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum.“ Reiknað er með að taka áætlunina fyrir 18. desember.

Stefán Snædal Bragason, skrifstofustjóri Fljótsdalshéraðs, segir að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins verði afgreidd með nokkrum halla. Það skýrist af ört minnkandi útsvarstekjum vegna virkjanaframkvæmda, samdráttar hjá verktakafyrirtækjum og aukins atvinnuleysis í kjölfar gjaldþrota og uppsagna. Ekki verði hægt að afgreiða fjárhagsáætlun fyrir jól.

kolbeinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×