Innlent

Eggert spyr hvort illskan sé í ættinni

Eggert Haukdal á Bergþórshvoli stendur enn einu sinni í harðvítugum nágrannaerjum, að þessu sinni við frænku sína og eiginmann hennar. Þingmaðurinn fyrrverandi spyr hlæjandi hvort það sé í ættinni að vera illmenni.

Fyrir aldarfjórðungi vöktu deilur Eggerts og prestsins á Bergþórshvoli þjóðarathygli. Myndir í gluggum nágranna sem eiga að sýna umgengni Eggerts um þessa sögufrægu jörð eru hluti af nýjustu erjunum sem rekja má til þess að fyrir tveimur árum seldi hann bróðurdóttur sinni og manni hennar jörð sína ásamt húsakosti. Samdi Eggert um að hann fengi að búa áfram í íbúðarhúsinu og var ætlunin að þannig eyddi hann ævikvöldinu í sambýli við frænku sína. Fljótlega fór að bera á erfiðleikum í þeirri sambúð. Eiginmaður frænkunnar, Runólfur Maack, segir þau hafa mátt þola stöðugt áreiti af hálfu Eggerts. Þau ákváðu að bregðast við með því að stúka af séríbúð fyrir Eggert í hluta neðri hæðarinnar og létu síðan bera Eggert út úr hinum hluta hússins með dómsúrskurði. Hann segir að eldhúsið hafi verið tekið af sér. Fjórir dómsúrskurðir hafa fallið Eggerti í óhag. Nágrannarnir áttu rétt á taka eldhúsið enda eigendur hússins. Eggert gerir þó athugasemd við að dómar hafi fallið án þess að vettvangskönnun hafi farið fram. Hann hefur breytt svefnherbergi í bráðabirgðaeldhús með lausri eldavélarhellu og leirtauið er í fataskáp.

Vaska þarf upp á baðherberginu þar sem rétt drýpur úr krönum. Nágrannarnir segja vatnsleysið ekki þeim að kenna, heldur lélegri vatnsveitu sveitarfélagsins. Runólfur Maack vill reyndar meina að Eggert sé þannig gerður að hann þrífist á illdeilum.

Spurður hvort hann kjósi nú ekki helst, eftir langvinn málaferli, að setjast á friðarstól, svarar Eggert að ágætt sé að hafa eitthvað fyrir stafni. Hann spyr hlæjandi í viðtali við Stöð 2 hvort það sé í ættinni að vera illmenni, en vill ekki meina að slíkt gildi um sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×