Innlent

Lífeyrissjóðirnir bíða svars frá stjórnvöldum

Árni Guðmundsson framkvæmdarstjóri Gildi lífeyrissjóðs.
Árni Guðmundsson framkvæmdarstjóri Gildi lífeyrissjóðs.

„Síðast þegar ég vissi var svarið ekki komið, en það hlýtur að fara að koma," segir Árni Guðmundsson framkvæmdarstjóri Gildi lífeyrissjóðs en fimm stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa sent yfirvöldum erindi um hugsanlega yfirtöku á innlendri starfsemi Kaupþings.

Gildi er einn þessara sjóða en Árni segir að erindið hafi verið sent til stjórnvalda fyrir um sólarhring síðan. „Erindið snýst um það hvort menn séu til í viðræður um að sjóðirnir muni hugsanlega eignast hlut af bankanum og þá aðallega innlendu starfsemina," segir Árni sem vill lítið segja til um hvort menn séu bjartsýnir á að þetta verði að veruleika.

„Það er útilokað að segja, við verðum fyrst að bíða eftir svari og svo sjá hvort menn vilja ræða þetta á sömu nótum."

Aðspurður um ástæðu þess að lífeyrissjóðirnir hafi ákveðið að leita til stjórnvalda með þessa hugmynd segir Árni að í því umróti sem nú ríki sé ljóst að miklir fjármunir hafi tapast og menn verði að skoða þau tækifæri sem upp koma.

„Með þessari hugmynd eru menn að reyna að vinna til baka eitthvað af því sem tapaðist. Með því vilja menn endurreisa bankann og gera hann arðbærann til framtíðar og þannig skila til baka einhverju af þessum fjármunum. Menn vilja heldur ekki sjá að allir bankarnir séu í eigu ríkissins."

Aðspurður hvort það skjóti ekki skökku við að lífeyrissjóðirnir verði þá komnir í samkeppni við ríkið í bankastarfsemi segir Árni:

„Þakð má alveg segja það en við teljum það ekki vera neitt slæmt í sjálfu sér. Þetta er hinsvegar á byrjunarstigi enn og það er langt í land. Að okkar mati er þetta hinsvegar eitthvað sem vel þessi virði er að skoða."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×