Íslenski boltinn

Leifur: Hausinn fór út í veður og vind

Leifur Garðarsson.
Leifur Garðarsson.

Fylkir tapaði sínum þriðja leik í röð þegar liðið beið lægri hlut fyrir KR í dag. KR-ingar unnu öruggan sigur 3-0. Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkis, tók út leikbann í leiknum.

„Þetta var döpur frammistaða ef frá eru taldar fyrstu mínúturnar og við inn í leiknum. Svo gefum við þeim mark á silfurfati vegna einbeitingar- og samskiptaleysis milli manna. Eftir það virðist hausinn á mönnum fara út í veður og vind," sagði Leifur eftir leik.

„Það á að vera þannig að þó spilið gangi illa þá eiga menn að geta barist. Mér fannst það vanta og það er dapurt."

Leifur segist þó ekki hafa áhyggjur af sínum mönnum þrátt fyrir þrjá tapleiki í röð. „Ég hef engar áhyggjur en auðvitað er betra að vinna leiki en tapa þeim. Við þurfum bara að laga það sem þarf að laga. Það er bikarkeppni í vikunni og svo Evrópuleikur svo það eru skemmtileg verkefni framundan. Þau verða hinsvegar ekki skemmtileg nema menn mæti fullir af áhuga," sagði Leifur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×