Innlent

Norskra feðga leitað í alla nótt

Björgunarsveitarmenn af Norðaustur- og Austurlandi hafa í alla nótt leitað að fertugum Norðmanni og átta ára syni hans á hálendinu, en þeir hafa ekkert látið ættingja heyra frá sér síðan á fimmtudagskvöld.

Eftir að greint var frá hvarfi þeirra í fréttum klukkan sjö hefur lögreglan á Húsavík, sem heldur utan um leitina, fengið staðfest að þeir voru í Vík í Mýrdal á laugardag og sunnudag. Þeir komu hingað með Norrænu fyrir viku á glænýjum silfurgráum Honda CRV sem faðirinn ætlaði að ljósmynda í atvinnuskyni við sérstakar aðstæður.

Talið var að þeir ætluðu upp á hálendið, norðan Vatnajökuls. Vegslóðar þar eru meira og minna ófærir, en björgunarsveitarmenn hafa farið þar um eftir því sem hægt hefur verið, en án árangurs. Slæmt skyggni er á svæðinu þannig að ekki var hægt að hefja leit úr lofti. Nú er verið að leita svæðið frá Vík til Seyðisfjarðar en feðgarnir ætla aftur út með Norrænu. Ef ekkert fréttist til feðganna innan tíðar verður skipulögð stórleit væntanlega hafin í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×