Íslenski boltinn

Adolf fékk gat á lunga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Adolf Sveinsson, leikmaður Þróttar.
Adolf Sveinsson, leikmaður Þróttar.

Adolf Sveinsson, leikmaður Þróttar, fékk gat á annað lungað í leik Fylkis og Þróttar í síðustu viku og er óvíst með batahorfur. Hann segir í samtali við Vísi að þetta hafi verið mjög óþægileg reynsla.

„Ég var tæklaður snemma í leiknum og lenti illa á bakinu," sagði Adolf en segir að hann hefði ekki orðið var við neitt alvarlegt þá. „Ég hef verið að horfa á upptöku af leiknum og ég virðist hafa verið lagi í 1-2 mínútur. En svo þegar ég byrja að hlaupa aftur þá verð ég strax alveg búinn á því."

Adolf var skipt af velli strax á 21. mínútu leiksins. „Eftir að ég fór út af átti ég í vandræðum með að ná andanum og gat hreinlega ekki komið upp heilu orði. Ég var svo fluttur á sjúkrahús og náði að jafna mig frekar fljótlega."

Honum var haldið á sjúkrahúsinu um kvöldið en fékk svo að fara heim um nóttina með þeim fyrirmælum að taka því afar rólega.

„Ég má nánast ekkert gera. Næst á dagskrá er myndataka á föstudaginn þar sem ég fæ að vita næsta skref í málinu. Ég veit í raun ekkert hvað þetta þýðir, ég hef bæði heyrt að svona lagað gæti tekið stuttan eða langan tíma að jafna sig."

Í ljós kom að Adolf fékk fjögurra sentimetra rifu á lungað sem féll þó ekki saman. „Það er vonast til þess að þetta lagist að sjálfu sér en það kemur betur í ljós á föstudaginn. En það er óhætt að segja að þetta hafi verið afar óþægileg reynsla."

Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar, sagði í samtali við Vísi að það væri vissulega slæmt að missa Adolf sem var í byrjunarliðinu í síðustu tveimur leikjum liðsins.

„Við höfum annars verið frekar heppnir með meiðsli í vor. Sigmundur Kristjánsson hefur reyndar misst af upphafi mótsins en hann er byrjaður að æfa og gæti orðið klár eftir 2-3 vikur. Svo tognaði Carlos Bernal í leik með 23 ára liðinu í gær og verður ef til vill frá í 1-2 vikur. En þá er það upptalið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×