Innlent

Sameiginleg forsjá í langflestum tilvikum eftir skilnaði og sambúðarslit

MYND/Stefán

515 lögskilnaðir urðu hér á landi í fyrra og rúmlega 600 pör skráðu sig úr sambúð hjá Þjóðskrá. Þetta sýna bráðabirgðatölur Hagstofunnar.

Af þessum 515 lögskilnuðum voru 310 fjölskyldur þar sem úrskurða þurfti um forsjá barna undir 18 ára aldri. Af sambúðarslitunum voru hátt í 400 barnafjölskyldur.

Töluverðar breytingar hafa orðið á forsjárfyrirkomulagi á síðustu árum. Árið 1992 fóru mæður með forsjá barna úr lögskilnuðum í 89 prósentum tilfella en feður í 9 prósent. Aðeins tvö prósent foreldra fóru þá saman með forsjá barna.

Árið 2000 reyndist sameiginleg forsjá úr lögskilnuðum nánast jafn algeng því að mæður færu með forsjá, eða 47 prósent á móti 49. Í fyrra reyndist svo sameiginleg forsjá úr lögskilnuðum algengasta forsjárfyrirkomulagið, en þá fóru 76 prósent foreldra sameiginlega með forsjá barna sinna en 22 prósent mæðra og 2 prósent feðra.

Tölur Hagstofunnar leiða enn fremur í ljós að sameiginleg forsjá sé algengari úr sambúðarslitum en lögskilnuðum. Árið 1992 fóru 9 prósent foreldra sem slitu sambúð sameiginlega með forsjá en 88 prósent mæðra. Í fyrra var sameiginleg forsjá hins vegar valin í 90 prósentum tilfella.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×