Innlent

Sumarbústaðaeigendur vilja ekki Urriðafossvirkjun

Félag sumarbústaðaeigenda Lónsholti, sem er á austurbakka Þjórsár, tekur undir mótmæli landeigenda þar vegna fyrirhugaðrar byggingar Urriðafossvirkjunar.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi sumarhúsaeigendanna í lok síðasta mánaðar. Var samþykktin send forstjóra Landsvirkjunar ásamt iðnaðar-, umhverfis- og fjármálaráðherra.

Í ályktunni segir að virkjanir í byggð séu ótímabærar með öllu, ekki hvað síst á þessu svæði sem er þvert á virku misgengi jarðlaga auk þess sem umhverfis- og sjónmengun ásamt stórfelldum lands- og eignaspjöllum yrði veruleg um alla framtíð í grónum byggðum Suðurlands.

Fundurinn skorar jafnframt á þá ráðherrana að hafna útgáfu heimilda fyrir virkjuninni en beina kröftum Landsvirkjunar til fjalls þar sem Búðarhálsvirkjun bíður þolinmóð. Sumarbústaðaeigendur segja að verði af virkjuninni fari um 30 prósent af landi helmings lóðanna undir vatn auk hluta af sameiginlegu landi félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×