Innlent

Vísbendingar um að einkaneysla hafi dregist saman

MYND/Heiða

Velta í dagvöruverslun jókst um 2,4 prósent í maí síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og um rúm sjö prósent á mili apríl og maí.

Þetta kemur fram í nýrrri smásöluvísitölu Rannsóknarseturs verslunarinnar. Þar er þó bent á að hafi ekki orðið aukning í magni seldrar vöru í dagvöruverslunum þrátt fyrir aukna veltu. Þá séu óvenjumargir söludagar í maí. Varhugavert sé því að draga þá ályktun að þessi beina veltuaukning í verslun séu merki um aukningu á einkaneyslu. Líklegra sé að smásöluvísitalan gefi til kynna að einkaneysla hafi dregist saman. Bent er á að verð á dagvöru í maí hafi hækkað um nærri 15 prósent á einu ári og um 10 prósent frá áramótum.

Þá vekur athygli að hlutfall þeirra útgjalda sem heimilin í landinu verja til kaupa á mat og drykkjavöru nemur 12 prósentum af heildarútgjöldum þeirra, samkvæmt niðurstöðum nýrrar útgjaldarannsóknar Hagstofunnar. Þetta hlutfall hefur ekki mælst lægra áður og nálgast að hafa svipað vægi og heimilin verja til tómstunda og menningar, sem er 11,6 prósent.

Tölur Rannsóknarsetursins sýna enn fremur að sala áfengis jókst um rúm 13 prósent miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi. Þá reyndist hún nærri fimmtungi meiri en í apríl síðastliðnum. Líkleg skýring á þessari auknu sölu áfengis er fimmta helgin í maí sem viðmiðunarmánuðirnir hafa ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×