Erlent

Sérfræðingum greitt fyrir að látast höfundar lyfjarannsókna

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Myndin tengist ekki þessari frétt.
Myndin tengist ekki þessari frétt.

Bandaríska lyfjarisanum Merck & Co. hefur verið stefnt fyrir að ráða sérfræðinga til að leggja nöfn sín við fræðigreinar um verkjalyfið Vioxx í læknatímarit þrátt fyrir að hafa komið sem minnst nálægt rannsóknum á því.

Um 250 skjöl, sem lögð hafa verið fram fyrir rétti, sýna að starfsmenn Merck unnu einir eða með útgáfufyrirtækjum að ritun greinanna en á síðari stigum var sérfróðum aðilum greitt fyrir að gerast höfundar þeirra. Vioxx, sem Merck framleiðir, var tekið af markaði árið 2004 þegar rannsókn sýndi fram á tengsl þess við ákveðna hjartasjúkdóma.

Fyrirtækið féllst á að greiða 4,85 milljarða dollara, tæpa 360 milljarða króna, í bætur til handa tuga þúsunda notenda lyfsins sem urðu fyrir ýmsum hjartakvillum við notkun þess. Dr. Josep Ross við Mount Sinai-sjúkrahúsið stjórnar rannsókn málsins og segir hann athuganir hafa leitt í ljós að lyfjafyrirtæki séu tíðum búin að koma sér upp handritum að greinum um ýmsar framleiðsluvörur sínar og klæðskerasníða rannsóknir og rannsóknaniðurstöður áður en sérfræðingar koma nálægt þeim.

Þeir láti svo freistast til að lána höfundarnafn sitt á stórar rannsóknir sem birtar eru í fagtímaritum og verða þeim oft tækifæri til starfsframa. Oftar en ekki viti þeir hins vegar minnst um viðkomandi rannsókn eða raunverulega virkni lyfsins. Fréttasíða Bloomberg greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×