Innlent

Lifum ekki á því að horfa á fjöllin hér í kring

Breki Logason skrifar
Ragnar Jörundsson bæjarstjóri Vesturbyggðar.
Ragnar Jörundsson bæjarstjóri Vesturbyggðar.

„Mér fannst þetta ósköp klénn þáttur þar sem reynt var að gera þetta mál eins tortyggilegt og hægt er. Við munum hinsvegar halda okkar striki," segir Ragnar Jörundsson bæjarstjóri Vesturbyggðar um umdeildan Kompásþátt sem sýndur var á Stöð 2 í gærkvöldi. Þar var fjallað um hugmyndir um Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum sem Ragnar er fylgjandi þrátt fyrir að ekki liggi fyrir hverjir standi að baki framkvæmdunum.

Ragnar bendir á að verði að framkvæmdunum sé þetta dýrasta framkvæmd á Íslandi sem kosti yfir 4 milljarða dollara. „Ég hefði óskað þess að það kæmi fyrr fram hverjir standi að baki þessu en er hinsvegar ósmeykur. Þetta hefur einungis verið í gangi í tæpt ár og það er ekkert óeðlilegt við það," segir Ragnar sem veit ekki sjálfur hvaða aðilar það eru sem standa að baki framkvæmdunum.

Ragnar segir að vissulega séu skiptar skoðanir um Olíuhreinsistöðina á Vestfjörðum en fullyrðir að 90% íbúa í Vesturbyggð séu hlynntir því að atvinnustarfsemi að þessari stærðargráðu komi á svæðið. „Olíuhreinsistöð er hinsvegar enginn óskastaða en það verður eitthvað að gerast. Það er voðalega fallegt að geta horft bara á fjöllin hérna í kring, en þú lifir ekkert á því."

Álfheiður Ingadóttir þingmaður Vinstri-grænna er mjög á móti áformunum um Olíuhreinsistöðina og var ánægð með þátt gærkvöldsins sem vonandi kallar á frekari umfjöllun um málið að hennar sögn.

„Ég var náttúrulega búin að fá staðfestingu frá Ríkisstjórninni um að þeir vissu ekki hverjir stæðu á bak við þetta en þarna fékkst staðfest að sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum vita það ekki heldur. Maður hefði haldið að menn myndu vanda sig betur vegna þess að það hlýtur að skipta máli við hverja verið er að skipta," segir Álfheiður Ingadóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×