Innlent

Fullt út úr dyrum í fjármálaráðgjöf

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ásta S. Helgadóttir.
Ásta S. Helgadóttir.

„Við erum búin að bóka viðtöl alveg út apríl, því miður verð ég nú eiginlega að segja," segir Ásta S. Helgadóttir, forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, og á við að miður sé hve margir eiga í vandræðum með fjárhaginn.

„Við erum með símaráðgjöf alla daga á afgreiðslutíma Ráðgjafarstofu sem bjargar því sem bjargað verður og svo erum við líka með netspjall á heimasíðunni okkar sem hefur verið mikið notað. Þar þarf fólk ekki að koma fram undir réttu nafni frekar en það vill og þar getur fólk líka pantað tíma hjá ráðgjafa. Sumum finnst bara rosalega erfitt að lyfta upp símanum og panta tíma hjá okkur," útskýrir Ásta og bætir því við að þau vandamál sem viðskiptavinir Ráðgjafarstofu beri upp fylgi því að jafnaði eftir sem efst er á baugi hverju sinni í efnahagsmálum þjóðarinnar en komi þó aðeins eftir á.

Fólk kemur almennt í tvö viðtöl hjá stofunni, það fyrra er undirbúningsviðtal þar sem ráðgjafi áttar sig á stöðunni hjá viðkomandi en í því síðara eru viðskiptavininum kynntar leiðir til úrbóta og reynt að finna lausnir í stöðunni.„Þeim sem búa úti á landi gefst kostur á að senda inn umsókn um ráðgjöf og hringja svo í framhaldinu og fá ráðgjöf. Þeir fá tillögurnar sendar í pósti til sín líka," segir Ásta.

Gott að fá utanaðkomandi ráðgjöf

„Svo erum við með samning við Akureyrarkaupstað og þangað fer ráðgjafi tvisvar í mánuði og tekur viðtöl á fjölskylduskrifstofu Akureyrarbæjar. Það hefur komið mjög vel út. Það er svo gott þegar utanaðkomandi aðili kemur og veitir fólki ráðgjöf," segir hún.

Rekstur Ráðgjafarstofu byggir á samkomulagi 16 aðila en að rekstrinum standa félagsmálaráðuneytið, sem er stærsti aðilinn, allir bankarnir, Íbúðalánasjóður, Rauði krossinn, Landssamtök lífeyrissjóða og fleiri. Félagsmálaráðuneytið ber meginábyrgðina og er hluti ríkisins um 40% af rekstrarkostnaðinum.

„Það sem er svo mikilvægt er að fólk getur leitað hingað til sérfræðinga, við erum með lögfræðing, viðskiptafræðing, hagfræðing, byggingafræðing og starfsmann með BA í sálfræði, og fengið þessa þjónustu án þess að borga krónu fyrir það. Mér finnst mikilvægt að bankarnir komi að þessari starfsemi þrátt fyrir að vera allir í bullandi samkeppni. Þeir sýna mikla ábyrgð með því að taka þátt í þessu samfélagslega verkefni," segir Ásta.

Á morgun kynnir Ráðgjafarstofan ársskýrslu sína fyrir 2007 á morgunverðarfundi með þeim aðilum er koma að rekstrinum og samstarfsaðilum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×