Innlent

Hart tekist á í borgarstjórn um Fríkirkjuveg 11

Í borgarstjórn Reykjavíkur var í dag tekist á um söluna á Fríkirkjuvegi 11. Borgarfulltrúar VG lýstu þeirri skoðun sinni að hætta eigi við fyrirhugaða sölu á húsinu til Björgólfs Thors Björgólfssonar. Þeir minntu á afstöðu Ólafs F. Magnússonar borgarstjóra sem stóð gegn sölunni á sínum tíma og undruðust að hann væri búinn að skipta um skoðun.

Ólafur sagði hins vegar af og frá að hann væri búinn að skipta um skoðunn í málinu en sagði að sökum þess hve illa húsið væri farið eftir að hafa staðið autt væri brýnt að ljúka málinu fljótt og vel. Hann lýsti því yfir að söluferlinu eigi að vera lokið fyrir 2. maí næstkomandi.

„Það er ljóst að tillaga þess sem hér talar hlaut ekki brautargengi á sínum tíma. Það er ekki meirihluti fyrir því í borgarstjórn að húsið eigi að vera í eigu almennings," sagði Ólafur og bætti við að aðalatriði málsins snúist um hagsmuni almennings í málinu, verndun hússins og að aðgengi almennings um hallargarðinn svokallaða verði tryggt. Í máli hans kom einnig fram að hann væri ekki á móti sölu gamalla húsa í miðborginni til einkaaðila.

Óskar Bergsson sakaði borgarstjóra um að vera tvísaga í málinu þegar hann sagðist aldrei hafa verið á móti eignarhaldi einstaklinga á gömlum húsum í miðbænum. Svandís Svavarsdóttir, VG, bætti um betur og vitnaði í tillögu Ólafs sem hann lagði fram árið 2006, en þar sagði hann: „Ég lýsti andstöðu við áform um sölu, húseignin verðskuldar að vera áfram í eigu almennings." Ólafur sagði að vissulega hefði hann sagt þetta á sínum tíma. Hins vegar hefði borgin ákveðið að setja húsið í söluferli. „Nú verðum við að hafa hraðar hendur í þessu máli. Það er ekki meirihluti fyrir því að borgin reki áfram þetta hús, eins og ég hefði viljað og væri mín ósk. Það er ekkert sem rekur mig áfram annað en það ástand sem húsið er komið í fyrir tilstilli annara borgarfulltrúa," sagði borgarstjóri.

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks tók til máls og benti á að búið væri að ákveða að selja húsið og því væri varla góð ákvörðun að hætta við nú.

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi.

Björk Vilhelmsdóttir sagði það kröfu Samfylkingar að hestagerðið við austurenda hússina verði verndað. „Við föllumst ekki á hugmyndir um viðhafnaraðkomu fyrir tigna gesti," sagði Björk og bætti því við að gestir hússins gætu allt eins ekið að því aftan frá í stað þess að fara í gegnum hallargarðinn.

Svandís tók á ný til máls og sagði fundinn hafa ollið tvennskonar vonbrigðum: „Annars vegar með að borgarstjóri skuli hafa skipt um skoðun varðandi húsið í eigu almennings. Hins vegar varðandi skipulag garðsins, að við skulum ekki sjá nokkurt viðnám gagnvart ítrustu kröfum hæstbjóðanda. Ég geri ráð fyrir því að það muni draga dilk á eftir sér." Þá var þess krafist að fyrirhugaðar breytingar á garðinum og aðkomu að húsinu verði kynntar formlega fyrir almenningi.

Á eftir fylgdu beittar skeitasendingar þar sem borgarstjóri var sakaður um að skipta um skoðun í málinu. Hann brást við með því að lesa meðal annars upp nokkrar tillögur sem hann bar upp um friðun eldri húsa í miðbænum án þess að fá stuðning við þær frá VG. Þorleifur Gunnlaugsson sagði við það tilefni: „Svo skal böl bæta að benda á eitthvað verra."

Og menn gerðust æ háfleygari en þegar borgarstjóri veitti andsvar við bókun VG þar sem hann taldi vegið að sér sagði Ólafur: „Illt er að sjá hvað átt þú bágt, alla setur hljóða, að þú getir lagst svo lágt listaskáldið góða."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×