Innlent

Þunglyndi er dýr sjúkdómur

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Notkun þunglyndislyfja hefur aukist á Íslandi.
Notkun þunglyndislyfja hefur aukist á Íslandi.

„Geðrofslyf eru fyrst og fremst til notkunar við geðklofa og geðrofi sem er þýðing á psychosis eða sturlun. Þau eru líka notuð í smáum skömmtum sem jafnvægislyf í viðhaldsmeðferð við geðhvarfasýki," segir Kristófer Þorleifsson, geðlæknir og formaður Geðlæknafélags Íslands, en Vísir birti í gær frétt um aukinn kostnað Tryggingastofnunar ríkisins við geðrofslyf og þunglyndislyf.

„Margir sem haldnir eru geðklofasjúkdómi þurfa þunglyndislyf, menn verða oft daprir við þær aðstæður. Síðan eru geðrofslyfin oft notuð í smáum skömmtum sem kvíðalyf, t.d. hjá þeim sem varasamt er að gefa kvíðastillandi lyf vegna ávanahættu," sagði Kristófer enn fremur. Hann sagði þunglyndi mjög alvarlegan sjúkdóm sem bæði væri vangreindur og vanmeðhöndlaður en u.þ.b. 14 - 15% sjúklinga fengju rétta meðferð.

Kristófer skýrði aukna notkun þunglyndislyfja með því að fólk væri almennt orðið betur meðvitað um að leita sér hjálpar við þunglyndi, ekki væri um sama feluleikinn að ræða og þegar geðsjúkdómar ættu í hlut. Eins væri þunglyndi nú mun betur greint og meðhöndlað en áður og aukaverkanir lyfjanna minni.

Aukaverkanir minni

„Aukaverkanir þessara nýju lyfja eru margfalt minni en gömlu lyfjanna. Fram til 1988 voru þunglyndislyf ekki gefin nema í svæsnustu tilfellum af því að þau höfðu svo miklar aukaverkanir. Þunglyndi er mjög dýr sjúkdómur og er í hópi þeirra tíu sjúkdóma sem valda mestum forföllum frá vinnu í heiminum," sagði Kristófer. Hann sagði að á hverjum tíma fyndi e.t.v. fimmtungur þjóðarinnar fyrir einhvers konar þunglyndiseinkennum, 6 - 8% karla og 10 - 12% kvenna. Að mati Kristófers nota um 10% þjóðarinnar þunglyndislyf.

Batahorfur þunglyndissjúklings eru misjafnar eftir aldri hans og umfangi sjúkdómsins. „Ef fólk er komið yfir fertugt og hefur fengið tvö eða fleiri slæm þunglyndisköst leggur maður upp með ævilanga meðferð af því að það er svo mikil hætta á að þetta endurtaki sig og hvert nýtt þunglyndi verður erfiðara, þyngra og lengra og erfiðara að ná fólki upp úr því," sagði Kristófer og bætti því við að fólk leitaði yfirleitt til síns heimilislæknis eða beint til geðlæknis.

„Fólk fer oft að missa svefn, treystir sér ekki í vinnu og hefur ekki styrk eða einbeitingu til að sinna daglegum verkum. Þegar fólk er orðið mjög fullorðið getur þetta lýst sér í ákveðinni tregðu, það hægir á allri líkamsstarfsemi og svo fylgir andleg tregða sem getur lýst sér eins og elliglöp í sumum tilfellum," sagði Kristófer að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×