Innlent

Tíundi hver undir lágtekjumörkum árið 2005

Einn af hverjum tíu sem bjuggu á einkaheimilum á árunum 2003-2005 var fyrir neðan lágtekjumörk eins og þau eru skilgreind í lífskjararannsókn Evrópusambandsins. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar sem tók þátt í rannsókninni.

Lágtekjumörkin voru rúmlega 111 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur á mánuði fyrir einstakling sem bjó einn árið 2005 en tæplega 234 þúsund krónur fyrir tvo fullorðna með tvö börn. Hlutfall þeirra sem voru undir lágtekjumörkum árið 2005 var hæst hjá konum í aldurshópnum 16-24 ára, rúm 14 prósent en lægst hjá fólki í aldurshópnum 50-64 ára, rétt yfir 4 prósent.

Hlutfallslega fleiri þeirra sem bjuggu einir eða einir með börn voru undir lágtekjumörkum en þeir sem bjuggu á annars konar heimilum. Það sama gildir um þá sem bjuggu í leiguhúsnæði samanborið við þá sem bjuggu í eigin húsnæði.

Ísland ein þriggja þjóða með lægsta lágtekjuhlutfallið

Hagstofan segir að þegar þau sá fimmtungur landsmanna sem hafði hæstar ráðstöfunartekjur hefði verið borinn saman við þann fimmtung sem hafði lægstar ráðstöfunartekjur árið 2005 kemur í ljós að tekjuhæsti hópurinn var með nærri fjórum sinnum hærri tekjur en sá tekjulægsti. Gini-stuðullinn, sem sýnir dreifingu ráðstöfunartekna meðal allra landsmanna sem búa á einkaheimilum, var 26 árið 2005. Stuðullinn væri 100 ef sami maðurinn væri með allar tekjurnar en 0 ef allir hefðu jafnar tekjur.

Af 30 Evrópuþjóðum árið 2005 var Ísland ein þriggja þjóða sem var með lægsta lágtekjuhlutfallið. Þá voru sex Evrópuþjóðir með lægri Gini-stuðul en Íslendingar, tvær jafnar og 21 með hærri stuðul.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×