Innlent

Vörubílstjórar gefa stjórnvöldum vikufrest

Vöru- og sendibílstjórar hafa ákveðið að gefa stjórnvöldum vikufrest til að koma með skýr svör við kröfum þeirra og frestað aðgerðum á meðan. Til stóð að stoppa alla umferð til og frá borginni í dag en frá því var horfið.

Þetta var ákveðið á fjölmennum fundi bílstjóra í gærkvöldi. Fulltrúar bílstjóra funduðu með fjármálaráðherra fyrr í vikunni og eftir þann fund var þungt í þeim hljóðið. Bílstjórar tilkynntu þá frekari aðgerðir sem áttu samkvæmt heimildum fréttastofu að eiga sér stað í dag. Kölluðu bílstjórar aðgerðina Stóra stopp en í henni fólst að stöðva alla umferð til og frá Reykjavík.

Skömmu eftir fundinn með fjármálaráðherra fengu fulltrúar bílstjóranna fundarboð með lögfræðingi fjármálaráðuneytisins og fer sá fundur fram á þriðjudag. Á fundinum í gær var því ákveðið að fresta aðgerðum fram yfir þann fund og gefa stjórnvöldum vikufrest til að koma með skýr svör við kröfum bílstjóra. Vilja þeir meðal annars fá að vita hvað stjórnvöld hyggjast gera og hvenær.

Sturla Jónsson, talsmaður vörubílstjóra, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að að þeim tíma liðnum verði ákvörðun tekin um hvort farið verði í frekari aðgerðir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.