Innlent

RÚV hugðist ekki mynda handtöku Jóns Ásgeirs

Fréttastjóri Ríkissjónvarpsins segir það rangt sem haldið sé fram í DV þann 1. maí síðastliðinn að myndatökumenn og fréttamenn frá RÚV hafi verið í Leifsstöð fimmtudaginn 29. ágúst 2002 og beðið eftir að ná myndum af handtöku Jóns Ásgeirs Jóhannessonar þegar hann kæmi til landsins með áætlunarflugi í tengslum við svokallað Baugsmál. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Elín Hirst fréttastjóri hefur sent fjölmiðlum.

„Orðrétt segir Jóhann í greininni, undir millifyrirsögninni Vildu sýna Jón Ásgeir í handjárnum:,,... í kjölfar lögreglunnar fygldu töku- og fréttamenn frá Ríkissjónvarpinu þess albúnir að mynda atburðarrásina væntanlegu. „ Þetta er rangt hjá Jóhanni. Í Leifsstöð 29.ágúst 2002 var enginn frá fréttastofu Sjónvarpsins, hvorki fréttamenn né myndatökumenn," segir í yfirlýsingunni.

Elín segist hafa flett þessu upp í vinnuyfirlitum og fréttalistum fréttastofunnar frá þessum tíma og rætt við þá fréttamenn sem hafi verið á vakt og fjallað um málið, sem og vaktstjóra frétta þennan dag og kannist enginn við það sem Jóhann segi í grein sinni.

Fréttastjóri RÚV óskar því eftir að DV leiðrétti þetta ranghermi sem allra fyrst og biðjist velvirðingar á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×