Lífið

Gengið frá samningum um kvikmyndun Grafarþagnar

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
MYND/Frétt
Það er nóg um að vera hjá Baltasar Kormáki en hann og framleiðslufyrirtæki hans, Sögn, hafa tryggt sér kvikmyndaréttinn að Grafarþögn Arnalds Indriðasonar. Líklegt má teljast að kvikmynd um Grafarþögn yrði vel tekið, en bókin seldist í bílförmum á Íslandi.

Bókin hefur rakað að sér verðlaunum erlendis, og hlaut ensk þýðing hennar meðal annars Gullrýting samtaka breskra glæpasagnahöfunda árið 2005. Þá var kvikmyndarétturinn að Mýrinni, fyrri myndinni um Erlend og félaga, seldur til kvikmyndafyrirtækisins Overture á dögunum.

Baltasar sagði í samtali við Vísi að hann og Arnaldur muni nú setjast niður og byrja að skrifa handritið. Hann segist hafa rætt við Ingvar Sigurðsson um að taka að sér hlutverk Erlends aftur, en lengra sé málið ekki komið. Hann á þó von á því að flestir sem léku í Mýrinni verði með í Grafarþögn.

Ekki er vitað hvenær tökur á myndinni hefjast, en Baltasar segir það gerast þegar menn eru orðnir ánægðir með handritið. „Ég ætla að halda því opnu," segir Baltasar. ,,Mestu máli skiptir að hafa handritið gott."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.