Innlent

Slökkviliðið hreinsar upp olíu í Elliðavogi

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu er nú að hefja hreinsun á olíu sem fór í sjóinn í gær. Aðgerðin fer fram í Elliðavogi og búast menn við að vera í þessu eitthvað fram eftir degi. Talsverð olía fór í sjóinn.

„Við erum með tvær stöðvar þarna og erum að reyna að slæða þetta svona ofan af sjónum og úr fjörunni," segir Jóhann Ásgeirsson aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Jóhann segir að slökkviliðið sé bæði með dælur og nokkurs konar „pulsur" sem draga í sig olíuna sem er í sjónum.

Hann segir svolítið af olíu enn vera í sjónum sem eru eftirstöðvar af olílekanum sem varð í gærmorgun. Þá fóru 300-600 lítrar af svartolíu í sjóinn eftir að dæling á flutningaskipið Medemborg mistókst.

„Við verðum þarna eitthvað fram eftir degi og sjáum hve miklu verður hægt að ná upp af þessu," segir Jóhann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×