Lífið

Hvetur blaðamenn til betra máls

SB skrifar
Agnes Ósk Marzellíusardóttir
Agnes Ósk Marzellíusardóttir

Blaðamenn Vísis ráku upp stór augu þegar þeim barst póstur á ritstjórnarpósti frá 14 ára stúlku á Ísafirði sem blöskrar málvillur blaðamanna á netinu. Stúlkan, sem heitir Agnes Ósk Marzellíusardóttir, segir málvillur loða við netmiðlana.

"Ég spurði mömmu hvort ég ætti að senda þetta og hún sagði mér bara að láta vita," segir Agnes Ósk sem byrjar í tíunda bekk á næsta ári. Í sumar vinnur hún í sjoppu á Ísafirði en les vefmiðlana í frítíma sínum.

"Mig hefur oft langað til að láta blaðamenn vita þegar maður sér stafsetningarvillur en aldrei gert það áður."

En finnst Agnesi innsláttarvillur algengari á einum vefmiðli eða öðrum?

"Ég veit það ekki. Ég fer miklu oftar á Vísi en mbl.is svo maður tekur meira eftir þessu þar."

Agnes segist nokkuð góð í íslensku. Spurð hvort hún stefni sjálf á feril í blaðamennsku eða prófarkalestri hlær hún. "Hvað ætla ég að verða? Úff, ég veit það ekki. Hef ekkert pælt í því."

Blaðamenn Vísis reyna eftir fremsta megni að leiðrétta villur en í hita leiksins þegar kapphlaupið snýst um að vera fyrstur með fréttina getur villupúkinn slæðst með í för. Því er ábendingum, eins og þeim sem bárust frá Agnesi, vel tekið.

"Ég hvet bara alla blaðamenn til að vanda sitt mál," segir stafsetningarstúlkan að vestan að lokum.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.