Innlent

Lán til Orkuveitunnar frosin

Guðlaugur Sverrisson.
Guðlaugur Sverrisson.

Evrópskir bankar neita að afgreiða lán til Orkuveitu Reykjavíkur fyrr en ástandið lagast á Íslandi. Stjórnarformaður Orkuveitunnar segir að besti möguleikinn í spilunum til að höggva á hnútinn sé að koma álversframvæmdum í gang í Helguvík.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti í gær að endurnýja raforkusamning við Norðurál vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Samningurinn var samþykktur með fjórum atkvæðum gegn einu mótatkvæði fulltrúa Vinstri grænna en fulltrúi Samfylkingarinnar sat hjá við afgreiðslu málsins. Samningurinn er talinn hafa þýðingu fyrir lánsfjáröflun Norðuráls en Orkuveitan á einnig í vandræðum með að útvega sér lán til framkvæmda, að sögn Guðlaugs Sverrissonar stjórnarformanns.

Hann segir Orkuveituna eiga útistandandi lánsloforð hjá Evrópska þróunarbankanum og Evrópska fjáarfestingarbankanum. Þau lán verði, að sögn bankanna, ekki afgreidd fyrr en ástandið lagast á Íslandi.

Guðlaugur telur að Helguvíkurverkefnið sé í raun það eina í spilunum nú til að höggva á hnútinn. „Hafi einhver möguleika á að koma verkefnum af stað þá eru það Norðurálsmenn, að mínu mati, miðað við alla þá aðila sem við höfum rætt við," segir Guðlaugur. Hann kveðst vongóður um að þetta takist hjá þeim og það komi þá í ljós fljótlega á næsta ári hvort þessir samningar við banka í Evrópu gangi eftir. „Þeir eru vongóðir og við líka," segir hann.

Stjórnarformaður Orkuveitunnar segir að þetta verkefni geti skapað nokkur þúsund störf í landinu. Það gæti orðið til þess að Orkuveitan færi í Hverahlíðarvirkjun. Þetta myndi þýða störf á Suðurnesjum fyrir 4-5 þúsund manns, ef allt gengi eftir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×