Innlent

Stöðvuðu hópslagsmál manna á aðkomubát

Mynd/Vísir

Nokkur erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í liðinni viku. Þannig var hún kölluð að veitingastaðnum Lundanum aðfaranótt fimmtudagsins vegna hópslagsmála milli manna á aðkomubáti eins og það er orðað.

Enginn slasaðist alvarlega en áhöfninni var komið um borð í bátinn. Þá var lögreglu tilkynnt um þjófnað úr tveimur bílum sem stóðu við veitingastaðinn sömu nótt. Vitni, sem höfðu séð tvo menn inni í annarri bifreiðinni, lýstu þessum mönnum og voru þeir handteknir skömmu síðar. Þeir viðurkenndu að hafa farið inn í bifreiðarnar en sögðust aðeins hafa tekið einn vindlingapakka. Eigandi annars bílsins saknaði hins vegar tveggja geisladiskataskna en lögregla hefur ekki enn fundið þær.

Þá kom upp eitt fíkniefnamál í Eyjum í vikunni. Bifreið sem var að koma með St. Ola, afleysingaskipi Herjólfs, var stöðvuð á föstudagskvöld vegna upplýsinga sem lögreglu barst um að hugsanlega væri fíkniefni í bifreiðinni. Við leit í henni, með aðstoð fíkniefnaleitarhundsins Lunu, fannst ætlað amfetamín. Einn af þeim sem voru í bifreiðinni viðurkenndi að eiga efnið og telst málið upplýst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×