Innlent

Andóf gegn ríkisstjórninni undirbúið á bakvið tjöldin

Hörður Torfason, forsvarsmaður mótmælanna á Austurvelli.
Hörður Torfason, forsvarsmaður mótmælanna á Austurvelli.
Unnið er af mikilli elju og dugnaði, á bak við tjöldin, við að undirbúa frekara andóf gegn ríkisstjórninni, sem er rúin trausti mikils meirihluta þjóðarinnar. Stefnt er að öflugum aðgerðum strax að hátíðum afloknum og fyrr ef ástæða þykir, segir Hörður Torfason í tilkynningu til fjölmiðla.

Hörður segir að margar glæsilegar ræður hafi verið fluttar á Austurvelli á fjölmennum mótmælafundum undanfarnar 9 vikur. Yfirskrift þeirra hefur verið Breiðfylking gegn ástandinu. „Í undanfara jólanna hefur skiljanlega dregið úr aðsókn á fundina. Mæður og feður vilja búa börnum sínum gleðileg og friðsæl jól. Slíkt er sjálfsagt og eðlilegt, en um leið er engin ástæða til að leggja fundina af. essar aðstæður kalla hins vegar á breytt fundarform," segir Hörður.

Hann segir að því hafi verið brugðið á það ráð að fresta ræðuhöldum, með tilheyrandi kostnaði vegna leigu á tækjabúnaði, og halda þess í stað kyrrðar og friðarstund. Hann hvetur fólk til að mæta á Austurvöll næstkomandi laugardag, 13. desember, klukkan þrjú og sýna samstöðu gegn ástandinu með 17 mínútna þögn. Í fyrstu fréttatilkynningunni um þennan viðburð hafi fólk verið hvatt til að lúta höfði en það sé hér með tekið til baka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×