Innlent

Gera athugasemd við að afnema eigi þagnarskyldu

Frá Alþingi
Frá Alþingi

Stjórn Lögmannafélags Íslands lýsir yfir fyllsta stuðningi við umsögn laganefndar Lögmannafélagsins sem snýr að frumvarpi til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna og tengdra atburða.

Í tilkynningu frá stjórninni segir að sérstakar athugasemdir séu gerðar við þá fyrirætlan löggjafans að afnema þagnarskyldu lögmanna. Bendir stjórnin á að þagnar- og trúnaðarmannasambandi lögmanns og skjólstæðings sé um gjörvallan heim talið meðal mikilvægustu grundvallarmannréttinda og einn af hornsteinum réttarríkisins.

„Með afnámi lögbundinnnar þagnarskyldu lögmanna væri ekki aðeins very ðað gera þeim nánast ókleift að sinna starfi sínu, sem þeir hafa unnið sérstakan eið að um að sinna af bestu trúmennsku og samvisku, heldur er lögmönnum samkvæmt frumvarpinu, beinlínis gert, að viðlagðri fangelsisrefsingu í allt að 2 ár, að brjóta mannréttindi á skjólstæðingum sínum með því að skýra frá upplýsingum sem lögmenn kunna að búa yfir starfa sinna vegna," segir í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur að þessi fyrirætlan löggjafans sé sérstaklega alvarleg í ljósi hlutverks lögmanna sem verjenda sakaðra manna, enda myndi afnám þagnarskyldu gera það að verkum að íslenska ríkið bryti gegn rétti þeirra til að verjast ásökunum um refsiverð brot og með því brjóta gegn ákvæði 6.gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem sakborningum væri ekki lengur tryggð réttlát málsmeðferð fyrir dómi.

„Sú stefna löggjafans sem endurspeglast í umræddu frumvarpi og sem hér er vakin athygli á er til þess fallin að ógna réttaröryggi borgaranna og vega að þeim gildum sem almmnt eru viðurkennd í lýðræðissamfélögum og skaða ímynd Íslands sem lýðræðis- og réttarríkis. Þá mun þessi breyting færa okkur marga áratugi aftur í tímann og er fullkomið stílbrot þegar horft er til annars jákvæðrar þróunar í mannréttindarmálum hér á landi síðustu áratugina."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×