Innlent

Innlán voru meirihluti eigna í sjóði Kaupþings

Innlán voru tveir þriðju eigna peningamarkaðssjóðs Kaupþings. Annað var í skuldabréfum, mest frá Kaupþingi og Existu.

Ætla má af yfirliti Nýja Kaupþings um sjóðinn að skuldabréf fyrir sjö milljarða króna hafi verið keypt úr sjóðnum.

Fram kemur í upplýsingum frá Nýja Kaupþingi að 36,3 milljarðar króna hafi verið í sjóðnum þegar greitt var úr honum. Þá hafi tekist að greiða út um 85 prósent af því, um 31 milljarð króna. Skuldabréfin hafi því verið keypt með um 44 prósenta afslætti.

Skuldabréf útgefin af Kaupþingi voru 11,4 prósent af eignum sjóðsins og skuldabréf útgefin af Exista voru tæp sjö. Hlutur annarra útgefenda var minni.

Fram kemur í yfirliti Kaupþings að sjóðurinn hafi smækkað mjög frá því fyrir um ári. Þá voru um 84 milljarðar í sjóðnum. Skuldabréf fjármálafyrirtækja voru um 15 milljarðar af því og skuldabréf annarra fyrirtækja hátt í 40 milljarðar.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst var ákveðið að reyna að draga úr stærð sjóðsins og auka hlutfall innlána þar, eftir að eignarhaldsfélagið Gnúpur fór á hausinn fyrir um það bil ári. Helstu eignir félagsins voru í FL Group, en félagið gaf sjálft út mikið af skuldabréfum.

Talið hefur verið að háar fjárhæðir, jafnvel yfir hundrað milljarðar króna hafi runnið frá nýju ríkisbönkunum inn í sjóðina. Um þetta hefur mikið verið spurt á Alþingi. Ekki hafa enn fengist ítarleg svör, önnur en að viðskiptaleg sjónarmið hafi ráðið kaupum á skuldabréfum.

Fram kom í Markaðnum fyrir skömmu að Nýi Glitnir hefði greitt 13 milljarða króna í sjóð 9. Engar sambærilegar upplýsingar hafa fengist frá Landsbankanum, þrátt fyrir að um það hafi verið spurt. -ikh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×