Innlent

Fylgdu manni inn í íbúð og réðust á hann

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Tveir menn voru handteknir í dag eftir að hafa veist að 37 ára gömlum manni á heimili hans við Tunguveg í Reykjavík upp úr hádegi.

Að sögn fórnarlambsins höfðu mennirnir tveir, sem eru milli tvítugs og þrítugs, ekið því heim og fylgt því svo inn undir því yfirskini að fá þar bjór. Segir maðurinn að svo hafi það engum togum skipt að mennirnir veitast að honum, vopnaðir hnúajárnum og kylfu.

Eftir nokkur átök tókst honum að brjóta glugga og hringdu nágrannar þá á lögreglu sem kom á vettvang og handtók árásarmennina. Var fórnarlamb árásarinnar flutt á slysadeild og hafði að sögn lögreglu skurð á augabrún. Hinum handteknu var sleppt að loknum yfirheyrslum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×