Lífið

Prescott þjáðist af lotugræðgi

John Prescott.
John Prescott.

Fyrrum aðstoðarforsætisráðherra Bretlands viðurkennir að hafa þjást af lotugræðgi í nærri tvo áratugi. Hann þorði ekki að viðurkenna sjúkdóminn þar sem hann er einkum tengdur við konur.

John Prescott var aðstoðarforsætisráðherra Bretlands á árunum 1997 til 2007. Hann var lykilmaður í að koma Verkamannaflokknum til valda árið 1997 og var hann einn helsti tengiliður flokksins við verkalýðshreyfinguna.

Í grein sem hann skrifar í Sunday Times í dag viðurkennir hann að hafa þjást af lotugræðgi allt frá því á 9. áratugnum. Lýsir hann því hvernig hann jós í sig hamborgurum, súkkulaði, kartöfluflögum og jafnvel niðursoðinni mjólk, einungis til að kasta upp á eftir. Átti hann það til að fara á kínverska veitingastaði og borðan nánast allt sem var í boði á matseðlinum.

Lotugræðgi, eða búlimía eins og sumir þekkja sjúkdóminn, hefur einkum verið tengdur við konur og segir Prescott að það hafi hindrað hann í því að viðurkenna vandamál sitt. Hann hafi skammast sín fyrir sjúkdóminn. Prescott segist þó hafa verið manna bestur í að leyna sjúkdómnum, því allan þennan tíma hafi hann ekki misst gramm.

Í greininni segir Prescott að eiginkona hans hafi orðið vör við sjúkdóminn fyrir sautján árum. Hún hafi hvatt hann til að leita sér hjálpar, sem og hann gerði. Það hafi hins vegar ekki dugað til og þegar hann tók við embætti aðstoðarforsætisráðherra hafi ástand hans versnað. En, nú hefur hann unnið bug á sjúkdómnum og stundar hann líkamsrækt af kappi. Hann neitar því þó ekki að hann elski mat, en forðast að borða á milli mála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.