Innlent

Sakar Davíð um að grafa undan forystu Sjálfstæðisflokksins

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, hefur með ummælum sínum grafið undan forystu Sjálfstæðisflokksins að mati þingmanns flokksins. Menntamálaráðherra segir eðlilegt að meintar hljóðupptökur af samræðum Davíðs við ráðherra ríkistjórnarinnar verði gerðar opinberar.

Ekki er útilokað að til séu upptökur af símtölum Davíðs við ráðherra ríkisstjórnarinnar þar sem hann varar við bankahruninu. Þetta á Davíð hafa sagt viðskiptanefnd Alþingis í síðustu viku.

Utanríkisráðherra hefur vísað því á bug að Davíð hafi varið við bankahruninu síðasta sumar. Forsætisráðherra segist ekki muna sérstaklega eftir því.

Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis hefur ítrekað reynt að ná tali af Davíð Oddssyni bæði í gær og í dag en án árangurs. Þá hefur ennfremur verið óskað eftir afriti af meintum hljóðupptökum en þeirri beiðni hefur ekki verið svarað.

Menntamálaráðherra segir nauðsynlegt að upptökurnar verði gerðar opinberar - séu þær á annað borð til - til að hægt sé að fá úr því skorið hvað sé rétt og rangt í þessu máli. Það þurfi að ríkja gegnsæi í þessu tilfelli eins og öllum tilvikum þannig að hægt sé að sjá heildarmyndina.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður sjálfstæðisflokks, segir að yfirlýsingar Davíðs undanfarnar vikur séu síst til þess fallnar að auka trúverðugleika Seðlabankans. Hún segist jafnframt telja það óeðlilegt að seðlbankastjóri tali með þessum hætti og hún telur að hann sé með þessum hætti að grafa undan forystu sjálfstæðisflokksins.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×