Innlent

Kaup í peningamarkaðssjóðum kölluðu ekki á sérstakt eiginfjárframlag

Björgvin G. Sigurðusson, viðskiptaráðherra.
Björgvin G. Sigurðusson, viðskiptaráðherra.

Kaup ríkisbankanna á bréfum í peningamarkaðssjóðum kölluðu ekki á sérstakt eiginfjárframlag bankanna að sögn viðskiptaráðherra. Þetta kom fram á Alþingi í morgun.

Innistæður í peningamarkaðssjóðum námu um 250 milljörðum þegar þeim var lokað við hrun bankanna í október. Bankarnir greiddu út um 80 prósent af þeirri upphæð til innistæðueigenda eða um 200 milljarða. Sá gjörningur hefur verið gagnrýndur meðal annars á þeim forsendum að sjóðirnir hafi verið áhættufjárfesting.

Birkir J. Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, beindi fyrirspurn til viðskiptaráðherra á Alþingi í morgun vegna þessa máls. Spurði hann meðal annars út í það hvort reglur hefðu verið brotnar þegar ákveðið var að borga út innistæðu og hversu miklum fjármunum hefði verið varið í það.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, benti á að í mörgum tilfellum hafi fólk fengið þær upplýsingar að um örugga fjárfestingu væri að ræða. Engu að síður hafi margir setið eftir með tap beindi hann því til fólks sem hafi verið fullvissað um að peningamarkaðssjóðir væru áhættulaus fjárfesting að taka það upp við úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

Ráðherra sagði einnig að kaup viðskiptabankanna á bréfum í sjóðunum hafi ekki kallað á sérstakt eiginfjárframlag. „Kaupin voru fjármögnum með innláni í bönkunum sjálfum og þetta er lykilatriði,“ sagði Björgvin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×